top of page
Writer's pictureSvanhildur Olafsdottir

Þakklæti er okkur efst í huga

Það er algjörlega einstakt að hugsa til baka til ársins 2018 þegar lítil hugmynd um happdrættiskvöld var framkvæmd með hófstilltar væntingar um umfang og árangur. Nú hefur Bleika boðið verið haldið í sjötta sinn og hefur viðburðurinn heldur betur stækkað með hverju árinu og fest sig í sessi sem einn helsti fjáröflunarviðburður félagsins.

Þetta var í fimmta sinn sem Hótel Selfoss og Riverside Restaurant gerðu okkur kleift að halda viðburðinn og ávallt er vel tekið á móti okkur og við finnum að það er hundrað prósent metnaður lagður í að mæta okkar óskum og þörfum.


Enn á ný hefur samfélagið gert okkur kleift að bjóða í Bleika Boðið því án þátttöku og hjálpsemi víðsvegar úr samfélaginu, þá væri þetta ekki hægt. Að viðburðinum í ár komu 120 verslanir og/eða einstaklinga með einum eða öðrum hætti og gáfu ýmist vinnu sína eða vörur í happdrættið. Þetta hlýtur að flokkast sem einstök samvinna og samstaða.  


Í starfsemi Krabbameinsfélags Árnessýslu er lögð áhersla á að færa þjónustuna í heimabyggð, að bjóða uppá stuðning, fræðslu og úrræði sem mæta þörfum einstaklinga og fjölskyldna sem hafa greinst með krabbamein. Félagið er aðildarfélag Krabbameinsfélags Íslands og hefur að okkar mati þá sérstöðu að geta haldið úti öllu því öfluga starfi sem fer fram, nær eingöngu með framlagi sjálfboðaliða sem gefur félaginu tíma sinn, veitir umhyggju og stuðning til allra þeirra sem þjónustuna sækja. Það er svo langt frá því að vera sjálfsagt að eiga svo stóran hóp af fólki sem starfar ár eftir ár í sjálfboðastarfi og leggur hjarta sitt í uppbyggingu félagsins.


Við erum einstaklega heppin að búa í samfélagi sem er svona stórt en á sama tíma svona lítið og samheldið. Á þennan viðburð mætir fólk sem vill sýna samstöðu, deila gleði og leggja sínum nánustu lið með því að standa þeim við hlið og leyfa þeim að finna að þeir eru hér fyrir þá. Einkunnarorð Bleiku slaufunnar í ár eru: Þú breytir öllu og eiga þau orð svo sannarlega um alla sem mættu eða komu að viðburðinum með einhverjum hætti.


Það er of langt mál að telja upp alla þá 120 aðila sem lögðu viðburðinum lið en við vonum að þið sem hlut eigið að máli, leyfið ykkur að finna þakklæti okkar og hlýhug til ykkar allra.

Með einlægu þakklæti til ykkar allra.


















Á myndunum má meðal annars sjá Gabríel Werner veislustjóra kvöldsins, Grétar Lárus tónlistarmann, Bjarka Sævarsson tæknimann frá db Entertainment, matreislumennina innan starfsmannahóps Tomma Þórodss sem framreiddu dýrindis mat, fallega blöðrubogann frá tilefni.is og fjölda gesta á Bleika boðinu.


47 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page