Endurhæfing er ferli sem snýr að því að auka eða ná fyrri hæfni í kjölfar veikinda eða slysa. Að vinna í því að ná upp færni til þeirra hluta sem þú gast áður.
Í kjölfar krabbameinsgreiningar og meðferðar upplifa margir skerðingu á ýmiss konar færni í daglegu lífi. Auk þess getur andlegt álag sem oft skapast við framangreinda þætti, valdið einhvers konar skerðingu á félagslegri, andlegri eða líkamlegri færni.
Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur nú í 3 ár boðið upp á metnaðarfulla endurhæfingu fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein. Til að mæta þörf félagsmanna sinna fyrir að ná fyrri heilsu eða færni var farið af stað með verkefni sem ber heitið Náum jafnvægi.
Náum jafnvægi er lýsandi fyrir markmið endurhæfingarinnar. Til að hefja bataferli eftir erfið veikindi og tekið þátt í lífinu á ný er nauðsynlegt að vinna að jafnvægi. Endurhæfingin gengur út á að styrkja fólk til jafnvægis í andlegri, félagslegri og líkamlegri líðan.
Þátttakendum í endurhæfingunni stendur til boða að auka líkamlegan styrk og þrek í Crossfit Selfoss undir leiðsögn íþróttafræðings. Hreyfingin miðast við einstaklinginn sem vinnur eftir eigin getu og markmiðum. Auk þess eru sérstakir teygju-og slökunartímar í húsi Yogasála, en það er einmitt talið nauðsynlegt í uppbyggingu eftir veikindi að styrkja liði og liðbönd. Jógakennari sér um sérstaka slökunartíma þar sem fólk fær verkfæri til að líta inn á við og vinna að andlegu jafnvægi.
Iðja er stór þáttur í endurhæfingunni. Boðið er upp á hin ýmsu handverksnámskeið undir stjórn fagaðila s.s. leirnámskeið, myndlist, matreiðsla, kortagerð og fleira.
Loks er rétt að minna á sálgæslustundirnar þar sem ýmis fræðsla fer fram og fólk getur rætt í trúnaði um sameiginlega reynslu og líðan undir stjórn sálgætis. Þessar stundir eru afar innihaldsríkar og gefandi fyrir þátttakendur.
Innan hópsins myndast mikill samhugur og vinátta þar sem þátttakendur deila sigrum og gleði, sorgum og vonbrigðum og dýrmætt að finna hvernig stuðningur samferðafólksins hjálpar til að takast á við áskornarinar sem felast í því ferli að auka færni sína.
Það skiptir ekki máli hvort einstaklingur er nýgreindur, í meðferð eða hefur lokið meðferð, þjónustan stendur þeim til boða sem telja sig þurfa á henni að halda eftir að hafa greinst með krabbamein.
Ef þú telur að endurhæfingin sé eitthvað sem þú getur nýtt þér eða spurningar vakna má hafa samband við umsjónarkonu verkefnisins, Margréti St. Guðjónsdóttur s: 892-0856 eða email: msg14@hi.is
Comments