Rúmlega sextíu manns komu saman að morgni laugardagsins 26.október og tóku þátt í æfingu sem Sigrún Arna Brynjarsdóttir crossfitþjálfari stóð fyrir ásamt Crossfit Selfoss.
Sigrún bjó um tíma í Noregi þar sem hún rak sína eigin Crossfit stöð og tók þar þátt í verkefni sem kallast Crossfit gegn Krabba. Hún ákvað að gera slíkt hið sama hér heima og styrkja Krabbameinsfélag Árnessýslu. Málefnið stendur henni nærri en hún hefur misst nána fjölskyldumeðlimi úr krabbameini.
Fólk greiddi þátttökugjald og fékk bol sem Sigrún hannaði ásamt Ernu í Brosbolum og Valgerði Gunnarsdóttur sem hannaði lógo-ið fyrir verkefnið. Fólk gat einnig greitt frjáls framlög auk þess sem Brunavarnir Árnessýslu lögðu verkefninu lið með áheitasöfnun og tóku þátt á æfingunni í öllum gallanum.
Krabbameinsfélag Árnessýslu þakkar bæði Sigrúnu, Crossfit Selfoss, Brunavörnum Árnessýslu og öllum þeim sem lögði orku sína í þennan skemmtilega viðburð. Hreyfing og heilbrigður lífstíll hefur mikið forvarnargildi gegn krabbameinum, auk þess sem félagsleg samstaða og að tilheyra svo öflugu samfélagi hefur gríðarlega þýðingu fyrir þá sem greinast með krabbamein. Sigrún segir að hér eftir verði viðburðurinn árlegur og hlökkum við til að taka þátt að ári.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum.






Comments