top of page
Writer's pictureSvanhildur Olafsdottir

Njótum sumarsins

Föst starfsemi og opið hús hjá félaginu er nú í nokkurra vikna sumarleyfi og vonum við að þið og okkar öflugu sjálfsboðaliðar sumarsins.


En veturinn hefur verið viðburðarríkur og skemmtilegur, margt um manninn á Eyraveginum bæði í opnu húsi og á viðburðum sem boðið hefur verið uppá. GK Bakarí hefur gefið félaginu bakkelsi sem boðið er uppá í opnu húsi og eru færðar kærar þakkir fyrir, hópastarf hefur verið vel sótt og starf félagsins er stöðugt að eflast. Samstarf við krabbameinsdeild HSU hefur eflst til muna og tenging milli læknis meðferðar og félagsleg stuðnings að verða enn betri. Aðalfundur félagsins var haldinn í apríl og var vel sóttur. Krabbameinslæknar HSU mættu á fundinn og kynntu starfsemi deildarinnar auk þess að fræðast um starfsemi okkar. Engar breytingar urðu í kjöri stjórnar og þakkar stjórnin fyrir traustið til áframhaldandi starfa.

Félagið gerði samstarfssamning við fjölskyldufræðinga í Sjálfsmildi um meðferðar-og stuðningsviðtöl fyrir félagsmenn og er félagið stolt af þeim stuðningi sem unnt er að bjóða fjölskyldum í krabbameinsferli uppá.   

Félagið hlaut fjölmarga styrki sem eru vel nýttir í starfsemi félagsins og þökkum við enn og aftur fyrir allan þann stuðning sem við finnum úr samfélaginu.


Í maí bauð félagið uppá golfnámskeið í samstarfi við GOS (Golfklúbb Selfoss), félagsmönnum sínum og aðstandendum að kostnaðarlausu. Alexandra Eir og Heiðrún Anna golfmeistarar kenndu þátttakendum helstu grunnatriðin í golfi og lauk námskeiðinu svo með skemmtilegu 9 holu móti. Mikil ánægja var með námskeiðið og er nokkuð víst að þátttakendur munu venja komur sínar áfram á golfvöllinn.


Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélags Íslands kom til okkar á Eyraveginn í maí með fyrirlesturinn „Þegar aðstandandi greinist“.  Forsvarsmenn úrræðisins „Rafrænn stuðningur“ á vegum Ljóssins var kynntur en um ræðir stuðning á rafrænu formi fyrir einstaklinga sem greindir eru með brjóstakrabbamein.


Félagið hélt uppá á 53 ára afmæli sitt með pylsu-og kökuveislu á Eyraveginum og var ánægjulegt að sjá hversu margir komu að fagna afmælinu með okkur.


Endurhæfingu á vegum félagsins hefur nú verið haldið úti  í fjögur ár. Í fyrstu var um tilraunaverkefni að ræða og hefur bæði tekist vel og staðfest þörfina á sérhæfðri endurhæfingu sem félagið er stolt að sé nú orðin fastur liður í rekstri félagsins.    


Hin árlega Vorferð félagsins var farin 20.júní og var þátttaka mjög góð. Farið var með rútu frá

Selfossi, austur að Skógasafni þar sem safnverðir buðu félagsmönnum að skoða og fræðast um menningararf Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga í atvinnutækjum til lands og sjávar, í listiðn, gömlum húsakosti, bókum, handritum og skjölum, allt frá landnámsöld til samtímans. Magga Steina fræddi félagsmenn um sínar uppeldisstöðvar í Vík í Mýrdal og var síðan borðað á Halldórskaffi.


Stjórnin nýtir sumarið meðal annars til að leggja inn í hugmyndabankann og skipuleggja komandi starfsár. Undirbúningur fyrir Bleika boðið er nú þegar hafinn og hlökkum við til að upplifa stærsta viðburð félagsins með ykkur þann 18.október á Hótel Selfossi. Frekari dagskrá mun vonandi liggja fyrir í ágúst þegar við snúum til starfa á ný.


Njótið sumarsins kæru félagar, hlúið að hvert öðru og hugið að andlegri og líkamlegri næringu.

Sumarkveðjur frá stjórninni.  






31 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page