Erla G. Sigurjónsdóttir er starfsmaður Krabbameinsfélags Árnessýslu. Hún hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2010, fyrst í lágu starfshlutfalli en með stækkun og aukinni þjónustu félagsins var starfshlutfallið hækkað í 70% árið 2023.
Erla sér um allan daglegan rekstur, bókhald og utanumhald þjónustu. Hún hefur góða þekkingu og reynslu í sálrænni skyndihjálp en hún starfaði hjá RKÍ í mörg ár og tekur hlýlega á móti félagsmönnum á Eyraveginum. Erla er hugmyndarík, jákvæð, drífandi og dugleg, hún lætur fátt í lífinu stoppa sig, tekst á við lífið með æðruleysi og jákvæðu hugarfari.
Erla er gift Hafsteini Jónssyni og eiga þau þrjú börn, tvö tengdabörn og þrjú barnabörn. Erla umvefur fjölskyldu sína hlýju og kærleika, gefur barnabörnunum það dýrmætasta sem amma getur gefið, tíma! Erla og Hafsteinn eru samhent hjón sem bralla margt saman, leggja félaginu lið við ýmis tilefni og eru alltaf tilbúin að gefa af sér.
Þau hjónin unnu nýlega saman að hugmynd sem Erla fékk, þar sem Hafsteinn sagaði út merki Bleiku slaufunnar og Erla skreytti með útgáfum Bleiku Slaufunnar síðustu ár. Verkefni þeirra er gott dæmi um þann hug og hjarta sem Erla leggur í starfið sitt fyrir félagið og erum við bæði stolt og þakklát fyrir okkar starfsmann
.
Commentaires