Styrktarsjóður stofnaður
- Svanhildur Olafsdottir
- May 25
- 1 min read
Lionsklúbbur Selfoss kom á dögunum í heimsókn til okkar á Eyraveginn og færði félaginu ríkulegan styrk að upphæð tvær milljónir. Fjárhæðin hefur safnast innan starfs Lions og á þeirra árlega kótilettukvöldi sem ávallt er vel sótt.
Lionsklúbburinn fór þess á leit við félagið að fjármununum yrði varið í að styrkja félagsmenn sem standa þurfa þungan straum af kostnaði vegna krabbameinsmeðferðar og aðstoða þar við að draga úr áhyggjum og auknu álagi sem fjárútlát geta haft á fjölskyldur í krabbameinsferli.
Innan Krabbameinsfélags Árnessýslu hefur því verið stofnaður sérstakur styrktarsjóður þar sem styrkur Lionsklúbbsins er stofnfé og tók stjórn félagsins ákvörðun á stjórnarfundi í framhaldi, að hluti alls styrktarfjárs og gjafa sem félaginu berst, fari inn á styrktarsjóðinn svo hann megi stækka og tækifæri gefist til að veita félagsmönnum styrki sem munar um.
Styrktarsjóðurinn er nýung hjá félaginu en aðrir styrkir sem félagið hefur veitt sínum félagsmönnum hafa, auka fræðslu og stuðnings, verið í formi greiðslu vegna sálrænnar meðferðar, ferða-og dvalarkostnaðar á meðferðartíma og sérstakar beiðnir teknar fyrir á stjórnarfundum þegar þær berast. Engin breyting er fyrirhuguð á þeim styrkjum né þörf á sérstökum umsóknum vegna þeirra.
Reglur sjóðsins og umsóknarform eru í vinnslu innan félagsins en horft verður til styrktarsjóða annarra aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins svo gæta megi samræmis og jafnræðis í úthlutunum. Áætlað er að sérstök úthlutnarnefnd hefji störf í ágúst og opnað verði fyrir umsóknir í styrktarsjóðinn í lok ágúst 2025.
Krabbameinsfélag Árnessýslu er Lionsklúbbi Selfoss innilega þakklátt fyrir þeirra framlag til félagsins og aukinn stuðning til félagsmanna.


Comments