Dagskrá haustsins
- Svanhildur Olafsdottir
- Sep 6
- 1 min read
Síðastliðinn föstudag, 5.september var haldin stutt kynning á starfi haustsins og mættu fjölmargir til okkar á Eyraveginn til að kynna sér dagskrána.
Ýmsar nýjungar verða í haust en þó verður að mestu hefðbundin dagskrá sem hefur fest sig í sessi við góðar undirtektir félagsmanna.
Smávægilegar breytingar verða á endurhæfingu félagsins en nýverið gengu Krabbameinsfélag Árnessýslu og Sjúkraþjálfun Selfoss í samstarf og mun Sjúkraþjálfun Selfoss nú bjóða uppá hópmeðferð í kjölfar krabbameinsgreiningar. Iðja, Yoga Nidra, teygju-og slökunartímar auk sálgæslu verða áfram innan endurhæfingarpógrammsins.
Félagið mun endurvekja samveru og hvíldarhelgi í Bergheimum að Sólheimum í Grímsnesi, en fyrir nokkrum árum stóð félagið fyrir slíkum viðburðum og var þátttaka ávallt góð og ánægjuleg. Stefnt er að því að dvelja helgina 17.-19. október og hægt að nálgast allar frekari upplýsingar og skrá sig á skrifstofu okkar í opnu húsi.
Áfram munum við bjóða upp á fjölbreytta fyrirlestra og skemmtileg námskeið, efna til fjölskyldustundar á aðventunni og gera okkur glaðan dag á jólahlaðborði í desember.
Bleika Boðið verður haldið föstudaginn 10.október á Hótel Selfoss og hafa landsfrægir listamenn boðið fram krafta sína til að efla viðburðinn okkar.
Fylgist endilega með á facebook síðu félagsins en einnig höldum við úti facebook síðunum Brosið (virkir félagsmenn), Smárarnir (karlahópur), Krabb.Árnessýslu fyrir 18-45 ára og Náum Jafnvægi (endurhæfing).
Minnum á símanúmerið okkar, 482 1022 og netfangið arnessysla@krabb.is






Comments