top of page
Search

Gleðilegt ár

Það er með stolti og miklu þakklæti sem ég skrifa annál ársins 2025 Krabbameinsfélags Árnessýslu, þessa öfluga félags sem hefur á síðustu árum vaxið svo gríðarlega og hefur sannað gildi sitt sem mikilvæg þjónusta í heimabyggð. Hér verður aðeins stiklað á helstu þátttum í starfi félagsins en ítarlegri umfjöllun og yfirferð um starfsemina mun birtast í ársskýrslu félagsins.


Ákvörðun var tekin á fyrsta stjórnarfundi ársins 2025, að leggja áherslu á forvarnir og lífstílstengda þætti í fræðslu og viðburðum félagsins, var það bæði í takti við slagorð Mottumars; Líf ertu að grínast, en einnig við áherslur Krabbameinsfélags Íslands um heilsulæsi. 


Sem fyrr var boðið uppá fjölbreytta fyrirlestra á árinu og má þar meðal annars nefna fyrirlestra um næringu, hreyfingu og þarmaflóruna.


Á Aðalfundi félagsins í apríl, varð breyting á stjórn félagsins frá fyrra ári, Johanna Biddy Byström kom ný í stjórn og Katrín Stefanía Klemenzardóttir lauk stjórnarsetu. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir sín störf í þágu félagsins.  


Félagsmönnum og aðstandendum var boðið uppá skemmtilegt golfnámskeið á vormánuðum undir faglegri kennslu Alexöndru Eir, golfkennara hjá Golfklúbbi Selfoss. Þátttaka var virkilega góð og félagsmenn ánægðir með námskeiðið.


Hin árlega vorferð var farin að þessu sinni á Hvolsvöll byrjun júní með skemmtilegri viðkomu í smáspunaverksmiðjunni Uppspuna þar sem vel var tekið á móti hópnum og boðið uppá kynningu um það sem fer fram í verksmiðjunni. En einnig var boðið uppá ýmsan fróðleik um íslensku sauðkindina, ullina af henni, hvað má gera úr henni og hvað hefur verið gert úr henni hingað til. Næst var farið í Lava center á Hvolsvelli þar sem fram fer stórbrotin sýning um fjölbreytta eldvirkni og jarðskorpuhreyfingar á Íslandi og hvernig landið hefur orðið til á milljónum ára. Og að lokum gæddi hópurinn sér á góðgæti á Eldstó Art Café á Hvolsvelli en Eldstó hefur þá sérstöðu að maturinn, drykkurinn, leirmunirnir og olíumálverkin á staðnum eiga sameiginlegan uppruna úr sveitinni.


Árlegi fjáröflunarviðburður félagsins, Bleika Boðið var haldinn í október á Hótel Selfossi og heppnaðist vel líkt og áður. Enn fleiri fyrirtæki og einstaklingar lögðu okkur lið við viðburðinn og þátttaka samfélagsins var algjörlega frábær.


Stjórninni gáfust mörg tækifæri til að kynna starfsemi félagsins á fundum og viðburðum hjá ýmsum félagasamtökum og naut félagið fjölmargra ríkulegra styrkja til starfseminnar. Öll þjónusta félagsins er félagsmönnum að kostnaðarlausu og veittir eru ýmsir styrkir til félagsmanna í þeirra meðferð og bataferli.


Styrktarsjóður var stofnaður á árinu með stofnfé frá Lionsklúbbi Selfoss sem veitti félaginu tveggja milljón króna styrk. Stjórn félagsins tók ákvörðun í kjölfarið að leggja 20% af öllu styrktarfé sem berst félaginu, inn á sjóðinn svo unnt sé að veita styrki til félagsmanna sem þurfa að takast á við þungar fjárhagslegar áskoranir tengdar krabbameinsferlinu. Þriggja manna úthlutunarnefnd var stofnuð og ein umsókn barst í sjóðinn á árinu.


Samstarf við Sjúkraþjálfun Selfoss hófst á haustmánuðum og býðst félagsmönnum nú tækifæri á líkamlegri endurhæfingu í hópi undir handleiðslu fagmenntaðra sjúkraþjálfara.


Fjölmörg félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar veittu félaginu fjárhagslega styrki á árinu og er þakklæti okkur efst í huga þegar við finnum fyrir einstökum samhug og samstöðu frá samfélaginu í heild. Slík þátttaka í starfi félagsins, með beinum eða óbeinum hætti hvetur okkur til áframhaldandi góðra verka og gefur aukin tækifæri til að eflast og auka við þjónustu í heimabyggð.


Að lokum ber að nefna ötult starf sjálfboðaliða innan félagsins. Krabbameinsfélag Árnessýslu er með opið hús þrisvar sinnum í viku þar sem veittur er jafningjastuðningur í félagslegum aðstæðum þar sem umhyggja og vinátta ríkir. Starf sjálfboðaliða innan félagsins er eftirtektarvert og einstakt og er félagið þakklátt öllum þeim einstaklingum sem tilbúnir eru að gefa af tíma sínum, orku og hugulsemi til félagsmanna og starfsemi félagsins.


Á nýju starfsári sjáum við mörg tækifæri til áframhaldandi góðra verka, fjölbreyttra nýjunga og öflugs samstarfs við samfélagið í heild. Stjórn félagsins leggur sig fram við að hlusta á þarfir félagsmanna og sníða þjónustuna eftir þeirra þörfum. Á nýju ári mun stjórnin leggja upp með aukinn stuðning við aðstandendur með stofnun stuðningshóps í umsjón fagaðila.


Fyrsta skrefið í að þiggja þjónustu getur verið erfitt og hefur samstarf við krabbameinsdeild HSU einfaldað mörgum félagsmönnum aðgengi að stuðningi á vegum félagsins. 


Með einlægri þökk fyrir liðið ár og ósk um góðar samverurstundir á nýju ári.


Fyrir hönd stjórnar Krabbameinsfélags Árnessýslu, Svanhildur Ólafsdóttir, formaður



 
 
 

Comments


  • Facebook
  • Twitter
  • Instagram

Krabbameinfélag Árnessýslu

Reikningsupplýsingar:

325-26-430797

kt. 430797-2209

Þökkum stuðninginn

© 2021 Krabbameinfélag Árnessýslu.
Framkvæmd og öryggi aðstoðað af Wix

Hafa samband

Sendu okkur skilaboð

Takk fyrir að hafa samband!

bottom of page