Með hjartað fullt af þakklæti
- Svanhildur Olafsdottir
- 15 minutes ago
- 2 min read
Með þakklæti í hjarta horfum við yfir viðburðaríkan bleikan október.
Margt hefur verið um að vera hjá félaginu í mánuðinum og hver samveran á fætur annarri verið næringarrík fyrir andlega og félagslega heilsu.
Félagið hefur notið gríðarlega mikils velvilja og samstöðu víðsvegar úr samfélaginu. Þakklæti er okkur efst í huga til allra þeirra sem hafa styrkt félagið á einn eða annan hátt, ýmist með vinnuframlagi, fjárframlagi og/eða þátttöku í starfsemi og viðburðum.
Krabbameinsfélag Árnessýslu er sjálfstætt aðildarfélag Krabbameinsfélags Íslands og starfar eftir eigin félagslögum en í samræmi við tilgang Krabbameinsfélags Íslands. Krabbameinsfélag Árnessýslu er eingöngu rekið af félagsgjöldum og styrkjum sem ýmist koma frá félagssamtökum, einstaklingum, fyrirtækjum og fjölbreyttum einstaklings framtökum, t.d í formi sölu á varningi þar sem ágóðinn rennur til félagsins.Innan Krabbameinsfélags Íslands er Velunnarasjóður sem aðildarfélög hafa möguleika á að sækja um verkefna-og rekstrarstyrki í. Má þess geta að árlega sækir félagið um styrk í sjóðinn til að standa straum af rekstrarkostnaði og launakostnaði starfsmanns félagsins í 70% starfshlutfalli. Einnig hefur félagið fengið styrki þegar farið er af stað með ný og kostnaðarsöm verkefni innan félagsins. Krabbameinsfélag Íslands býr yfir fagmenntuðu og reynslumiklu starfsfólki innan sinna raða, sem ávallt eru tilbúið að styðja við starfsemi félagsins, deila fræðslu og ráðgjöf.
Allt fé sem Krabbameinsfélag Árnessýslu fær, er nýtt til þjónustu við krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra. Félagið leggur áherslu á andlegan stuðning og veitir meðal annars styrki til sálrænnar meðferðar. Áhersla er á félagslegan stuðning og heldur félagið úti jafningjastuðningshópum auk þess að bjóða uppá fjölbreytta fyrirlestra og námskeið. Félagið leggur einnig áherslu á líkamlega endurhæfingu og er í faglegu samstarfi við sjúkraþjálfara sem veitir hópþjálfun sem og samstarfi við Yoga Sálir sem býður upp á slökun og hugleiðslu. Yfir árið eru ýmis skemmtileg námskeið í boði félagsins auk þess sem félagið streymir fræðslu og námskeiðum sem Krabbameinsfélag Íslands býður uppá.
Krabbameinsfélag Árnessýslu leggur áherslu á að stuðningur og þjónusta félagsins sé aðgengileg öllum óháð fjárhagslegri stöðu. Þess vegna eru styrkir og fjáraflanir félagsins mikilvægar svo unnt sé að halda úti fjölbreyttri og öflugri þjónustu við krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.
Félagið hefur fengið fjölmörg tækifæri til að koma inn á fundi ýmissa félagasamtaka og/eða fyrirtækja og kynna starfsemi félagsins. Slík tækifæri auka vitund og þekkingu almennings á starfsemi félagsins og enn fleiri hafa tækifæri til að nýta sér stuðning félagsins.
Með hlýjum kveðjum og þökkum til samfélagsins.








Comments