top of page

MottuMars


Það er nú alltaf eitthvað skemmtilegt um að vera hjá okkur á Eyraveginum og er Mottumars einn af okkar uppáhalds mánuðum. 


Krabbameinsfélag Íslands stendur árlega fyrir átaki á landsvísu um krabbamein og er mars mánuður sérstaklega tileinkaður karlmönnum. Markmið átaksins er að kveikja hugsun og efla meðvitund allra um áhættuþætti sem rannsakaðir hafa verið og sýnt hefur verið fram á að geta verið krabbameinsvaldandi en þó ekki síður um þá þætti sem geta dregið úr líkum á því að greinast með krabbamein.

Hver og einn ber ábyrgð á sinni heilsu, ber ábyrgð á sínu líferni og þeim ákvörðunum sem hann tekur. Enginn velur sér að greinast með krabbamein, það bara gerist og er öllum mikið áfall að greinast með lífshættulegan sjúkdóm. En það er margt í okkar lífstíl sem getur aukið líkurnar á að greinast með krabbamein.

Í skemmtilegri Mottumars auglýsingu Krabbameinsfélags Íslands, sem birt er í fjölmiðlum hafa landsþekktir karlmenn verið fengnir til að koma þeim skilaboðum til sinna kynbræðra, að hreyfing skipti máli.  Athygli er vakin á að hreyfing ætti að vera hluti af okkar daglega lífi og við getum tekið ákvörðun um að setja hreyfingu inn í okkar daglegu rútínu. Til dæmis með því að ganga frekar en að keyra, ganga tröppurnar frekar en að ferðast með lyftunni, standa öðru hverju upp úr stólnum og gera nokkrar hnébeygjur og þannig mætti lengi telja.

Margir greinast með krabbamein þrátt fyrir heilbrigðan lífsstíl. Enda er áherslan í átakinu ekki sú að hægt sé að koma alfarið í veg fyrir krabbamein með lífsstíl heldur að hægt sé að draga úr líkum. Það er þó staðreynd að margir þeirra sem hafa stundað heilbrigt líferni fyrir greiningu eru betur í stakk búnir að takast á við þau áhrif sem krabbameinsmeðferð hefur í för með sér.

Krabbameinsfélag Árnessýslu er öflugt aðildarfélag Krabbameinsfélags Íslands og tekur virkan þátt í þeim alvarleika en ekki síður gleðinni sem felst í Mottumars. Skilaboð okkar til allra karlmanna er að muna að líkaminn er musteri sem mikilvægt er að hlúa að og næra aðeins með bestu næringarefnunum.


Í tilefni Mottumars hafa strákarnir í GK Bakarí á Selfossi lagt félaginu lið og styrkja þá starfsemi sem félagið heldur úti, með framleiðslu og sölu á sérstakri Mottumars rúllutertu sem seld verður á Mottumarsdaginn 22.mars n.k. Fylgist endilega með skemmtilegum auglýsingum frá GK Bakarí sem birtast von bráðar.




Við hvetjum alla til að taka virkan þátt í Mottumars, hreyfa sig reglulega, láta tékka á sér, vera meðvitaðir um einkenni og heilbrigðan lífsstíl.

Hlökkum til að taka á móti ykkur í kaffi og meðlæti í opnu húsi á Eyraveginum þann 22.mars milli 11:00-15:00

Verið öll velkomin.





18 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page